6 myndbönd

Samtal um samfélagsmiðla

Fræðslumyndbandið Samtal um miðlanotkun (7:42 mín) inniheldur upplýsingar úr víðtækri rannsókn Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands meðal barna og ungmenna á aldrinum 9 – 18 ára vorið 2021. Við kynnum okkur leiðir til þess að nálgast samtal um notkun samfélagsmiðla. Hversu mikið á eftirlit foreldra að vera og hvert er hægt að leita þegar að eitthvað kemur uppá? Rætt er við Sigurð Sigurðsson sérfræðing í miðlanotkun barna hjá Heimili og skóla og SAFT ásamt ungmennum úr Ungmennaráðum Samfés og Samtakanna ́78.

Samfélagsmiðlar er megin umræðuefnið og sett í samhengi við jafnvægi í stafrænni notkun og vellíðan. Stuðningsefnið er einkum hugsað fyrir miðstig en ef ekki hefur verið farið í efnið með eldri nemendum er sjálfsagt að gera það.

Helstu atriði

35% barna á miðstigi og 65% á unglingastigi segja foreldra sína aldrei athuga hvað þau skoði á netinu.

12% barna á miðstigi og 26% á unglingastigi hafa sagt vinum sínum lykilorðið sitt.

3 af hverjum 10 á miðstigi og 7 af hverjum 10 á unglingastigi hafa samþykkt vinabeiðnir frá ókunnugum.

Helmingur barna á miðstigi og 80% á unglingastigi hefur þurft að blokka einstakling á samfélagsmiðlum

Um 80% nemenda á aldrinum 9-18 ára segja foreldra sína deila oft eða stundum myndum af sér á Instagram, Facebook eða Snapchat. Af þeim var aðeins tæplega helmingur foreldra sem bað um leyfi áður en myndunum var deilt.