Líðan og samfélagsmiðlar
Fræðslumyndbandið Líðan og samfélagsmiðlar (8:42 mín) inniheldur upplýsingar úr víðtækri rannsókn Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands meðal barna og ungmenna á aldrinum 9 – 18 ára vorið 2021. Hver er upplifun ungmenna af eigin notkun á samfélagsmiðlum og hvaða ráð myndu þau sjálf gefa öðrum sem yngri eru og vilja ólm byrja að nota samfélagsmiðla? Hér er rætt við ungmenni úr Ungmennaráðum Samfés og Samtakanna ́78 um samskipti á netinu og þeim áhrifum sem það getur haft á líðan. Er eitthvað í umhverfi samfélagsmiðla sem ýtir undir neikvæð samskipti? Ásamt því er rætt við Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd.
Líðan og samfélagsmiðlar er meginviðfangsefnið; tíminn sem þau eru á samfélagsmiðlum, hatursskilaboð undir nafni eða nafnlaus, hegðun á netinu, streyta varðandi fjölda „like“ og um hvernig koma megi í veg fyrir stafræn átök. Stuðningsefnið er hugsað einkum fyrir miðstig en ef ekki hefur verið farið í efnið með eldri nemendum er sjálfsagt að nota það.
Helstu atriði
Á bilinu 60-70% nemenda á elsta stigi grunnskóla og í framhaldsskóla segjast eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum.
Þriðjungur nemenda á unglingastigi hefur séð eftir færslu á samfélagsmiðlum
Um fjórðungur nemenda á aldrinum 9-18 ára hefur upplifað einelti á netinu, í tölvuleik eða á samfélagsmiðum.
Stelpur eru líklegri til að hafa upplifað það að myndir af þeim hafi farið í birtingu sem olli þeim leiða eða reitti þær til reiði. Strákar eru hinsvegar líklegri til að hafa upplifað hótanir á netinu, í símanum eða í tölvuleikjum.
Strákar eru líklegri til að fá auglýsingar um fjárhættuspil og áfengi en stelpur eru líklegri til að fá auglýsingar um megrunarvörur, andlitsmeðferðir (eins og bótox og fylliefni), útlitsaðgerðir (eins og brjóstastækkanir, rassastækkanir og nefaðgerðir) og sólbaðsstofur