6 myndbönd

Hatur og áreiti á netinu

Fræðslumyndbandið Hatur og áreiti á netinu (7:20 mín) inniheldur upplýsingar úr víðtækri rannsókn Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands meðal barna og ungmenna á aldrinum 9 – 18 ára vorið 2021. Hvað get ég gert þegar að einhver fer yfir mín mörk á netinu? Hér kynnum við okkur reglur um sendingar og deilingar nektarmynda og hvert er hægt að leita þegar að brotið er á okkur á netinu. Í flestum tilfellum eru það ókunnugir einstaklingar á netinu sem biðja börn um nektarmyndir. Rætt er við dr. Maríu Rún Bjarnadóttur verkefnisstjóra gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra. Ásamt því fáum við að heyra upplifun ungmenna úr Ungmennaráðum Samfés og Samtakanna ́78.

Hatur og áreiti á netinu er megin umræðuefnið, samskipti, ókunnugir, dreifing nektarmynda, varnir á miðlunum og staðir þar sem tilkynna má um óæskilegt efni. Stuðningsefnið er hugsað einkum fyrir miðstig en ef ekki hefur verið farið í efnið með eldri nemendum er sjálfsagt að gera það.

Helstu atriði

Fimmtungur nemenda á unglingastigi hefur séð hatursskilaboð gagnvart minnihlutahópum, áætlanir um slagsmál og leiðir til að skaða sig líkamlega á netinu á undanförnu ári.

Fjórðungur nemenda á unglingastigi hefur rekist á ógnvekjandi myndir þar sem verið er að skaða menn og dýr og umræður um leiðir til að grenna sig verulega (t.d. með búlimíu og lystarstoli) á netinu á undanförnu ári.

Á unglingastigi (8.-10. bekk grunnskóla) hafa 25% stráka og 42% stelpna fengið sendar nektarmyndir. 22% stráka og 51% stelpna fengið beiðnir um nektarmyndir. 30% stráka og 64% stelpna fengu beiðnir um nektarmyndir frá ókunnugum. 8% stráka og 12% stelpna hafa sent nektarmyndir af sér.

3 af 10 barna á miðstigi og 7 af 10 á unglingastigi hafa samþykkt vinabeiðnir frá ókunnugum.