Hugtök úr netheimum

Skilgreining

Upplýsingalæsi- og miðlalæsi er hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegnum mismunandi miðla og upplýsingaveitur.

Skilgreining

Þegar talað er um upplýsingaóreiðu (information disorder) er gjarnan átt við þrjá flokka af upplýsingum:

#1 Rangupplýsingar: Rangar eða ósannar upplýsingar sem dreift er með þeim ásetningi að valda skaða (disinformation).

#2 Misupplýsingar: Rangar eða ósannar upplýsingar sem dreift er án ásetnings um að valda skaða (misinformation).

#3 Meinupplýsingar: Réttar eða sannar upplýsingar sem dreift er með þeim ásetningi að valda skaða (malinformation).

Spjallmenni, upplýsingaóreiða, algóritmi og djúpvefur. Hér er listi með gagnlegum skýringum á ýmsum orðum og hugtökum úr netheimum.

AFC

Stytting á hugtakinu „Automated Fact-Checking“ á ensku og þýðir sjálfvirk, rafræn staðreyndaprófun.

Algóritmi (algrím)

Reiknirit (tölvuforrit) á netinu sem virkar með þeim hætti að þær upplýsingar sem birtast þér á netinu eru upplýsingar sem reikniritið heldur að þú viljir fá hverju sinni. Það sem getur haft áhrif á algóritmann eru leitarorð sem þú hefur áður slegið inn í leitarvélar, efni sem þú hefur áður deilt eða líkað við á netinu, efni sem vinir þínir á samfélagsmiðlum hafa áður deilt eða/og líkað við á netinu og þær vefsíður sem þú hefur áður farið inn á. 

Ádeila og skopstæling (e. Satire and parody)

Ádeila og skopstæling er yfirleitt meinlaus. Þó er hægt að nota ádeilu og skopstælingu til að deila villandi og röngum upplýsingum og til að gagnrýna einstaklinga, skoðanir eða hafa áhrif á umræðu.  Stundum er húmor einnig notaður til að réttlæta umdeildar skoðanir.

Áróður (e. propaganda)

Áróður hefur að markmiði að beina tilteknum skilaboðum ítrekað og markvisst að tilteknum hópum, til að reyna að breyta eða festa í sessi viðhorf, skoðanir og/eða hegðun viðtakenda, án þess að þeir geri sér endilega grein fyrir því eða óski eftir því. Áróðri hefur lengi verið beitt til að hafa áhrif á almenningsálit, oft í tengslum við hernað og stríð.

Áróður er stundum flokkaður í þrennt:

  • Svartur áróður einkennist af því að skilaboðin eru ekki eignuð réttum sendanda og innihald þeirra er jafnan lygi eða uppspuni. Dæmi: Útvarpsstöðvar sem reknar voru í seinni heimsstyrjöld, þar sem uppspuna um óvininn var miðlað til hlustenda og ekki var vitað hver stóð á bak við skilaboðin. Þegar rætt er um áróður í neikvæðri merkingu orðsins er oftast verið að vísa til svarts eða grás áróðurs (sjá neðar).
  • Hvítur áróður er gjarnan eignaður réttum sendanda og innihald skilaboðanna er í flestum tilvikum sannleikanum samkvæmt, eða því sem næst. Þess er þó gætt að innihaldið dragi upp sem fegursta mynd af þeim sem standa þar að baki. Dæmi: Almannatengsl (e. public relations) sem ganga að stórum hluta út á að skapa jákvæða ímynd af tilteknum fyrirtækjum í hugum viðtakenda.
  • Grár áróður er staðsettur á milli hvíts og svarts áróðurs en talað er um gráan áróður þegar ekki er vitað hver er sendandi skilaboðanna eða hvort þau séu sönn. Dæmi: Vöruinnsetning í myndefni (e. product placement) en það er þegar fyrirtæki greiðir fyrir að tiltekin vara sé sýnd eða á hana minnst í kvikmyndum og sjónvarpsefni án þess að áhorfandinn sé upplýstur um að greitt hafi verið fyrir vöruinnsetninguna. (Eitt þekktasta dæmið um vöruinnsetningu í myndefni eru Ray Ban sólgleraugun sem eru áberandi í kvikmyndinni Top Gun.)

Sjá nánari umfjöllun á Vísindavef Háskóla Íslands.

Bergmálshellar/Bergmálsherbergi/Bergmálsklefar (e. ecco chambers)

Umhverfi þar sem notendur samfélagsmiðla sjá aðeins viðhorf eða skoðanir sem samræmast þeirra eigin skoðunum, vegna algóritma sem stýra því hvaða efni birtist í fréttaveitum samfélagsmiðla. Bergmálshellar veita notendum samfélagsmiðla öruggt rými til að deila viðhorfum sínum og heimsmynd án þess að þeir eigi á hættu að lenda í útistöðum við þá sem eru á öndverðum meiði. Bergmálshellar og síubólur (sjá neðar) hafa mikil áhrif á samfélagsumræðu og hvernig almenningur mótar sér skoðun.

Blekkingar og falsanir

Að beita blekkingum er áhrifarík leið til að láta rangupplýsingar virðast sannar. Hægt er að falsa m.a. vörumerki og vefsíður fjölmiðla eða fyrirtækja, auðkenni stofnana eða undirskriftir til að ljá rangupplýsingum trúverðugleika. Einnig eru dæmi um að notendareikningar einstaklinga, t.d. á samfélagsmiðlum hafi verið falsaðir í þessum tilgangi.

Botti/yrki) (e. bot)

Botti er stytting á enska orðinu „robot“ (vélmenni) og hefur verið þýtt sem yrki á íslensku. Með því er átt við sjálfvirkt tölvuforrit sem er ætlað að framkvæma einföld og endurtekin verkefni eins og síendurtekna dreifingu efnis. Botti (yrki) hagar sér yfirleitt eins og manneskja á netinu, til dæmis með þeim hætti að endurtísta færslum á Twitter, skrifa athugasemdir í athugasemdakerfi samfélagsmiðla eða senda og svara skilaboðum í samskiptaforritum. Bottar (yrkjar) eru á bak við marga falska notendareikninga á samfélagsmiðlum, sem eru notaðir til að kynda undir umræðum í athugasemdakerfum.

Djúpfalsanir (e. Deepfakes)

Djúpfalsanir (djúpfölsuð myndskeið) eru fölsuð myndbönd sem byggja á gervigreindartækni en tæknin gerir kleift að láta t.d. þekkta einstaklinga og stjórnmálamenn „segja“ orð og setningar, sem þeir hafa aldrei sagt. Einnig er hægt að láta einstaklinga virðast þvoglumælta eða tala óeðlilega hægt. Djúpfölsunartækni getur verið mjög sannfærandi.

Djúpvefurinn/djúpnetið (e. Deep Web)

Djúpvefurinn (djúpnetið) er sá hluti veraldarvefsins sem er að nokkru hulinn og er óaðgengilegur hefðbundnum leitarvélum. Segja má að djúpvefurinn sé ósýnilegi vefurinn undir þeim sýnilega veraldarvef sem flestir þekkja og nota. Á djúpvefnum er að finna meirihluta þess efnis sem netið hefur að geyma, til dæmis stafrænar upplýsingar úr gagnagrunnum opinberra stjórnvalda og banka, einkagögn sem geymd eru í stafrænum skýjaþjónustum o.fl. Myrki vefurinn (e. Dark Web) er lítill hluti djúpvefsins (sjá umfjöllun um myrka vefinn neðar.)

Faldar auglýsingar (e. „dark ads“)

Enska hugtakið „dark ads“ má þýða sem „faldar auglýsingar“ á íslensku. Með því er átt við auglýsingar á netinu sem eru aðeins sýnilegar tilteknum einstaklingi og eru sérsniðnar að áhugasviði hans, út frá þeim persónuupplýsingum sem safnað hefur verið um hann með því að kortleggja notkun hans á samfélagsmiðlum og leitarvélum.

Falsfréttir

Hugtak sem er notað á ýmsa vegu, allt frá fréttum þar sem einstaka staðreyndir eru rangar til frétta sem eru uppspuni frá upphafi til enda. Finna má ítarlega skilgreiningu á hugtakinu falsfréttir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Gervigreind

Gervigreind er í raun algóritmi (algrím) eða röð af skýrum reglum sem leysa ákveðið verkefni sem venjulega er leyst af lifandi einstaklingum. Hugtakið vísar til þess þegar tölvuforrit getur skynjað og skilið umhverfi sitt og nýtt sér reynslu sína til að draga ályktanir og taka eigin ákvarðanir á svipaðan hátt og manneskjur. Gervigreindarforrit geta til dæmis skrifað ritgerðir,  búið til myndlist og tónlist, stýrt sjálfkeyrandi bílum og átt í stafrænum samskiptum við fólk. Dæmi um gervigreindarforrit er hið umtalaða ChatGPT, tungumálalíkan sem notar gervigreind til að svara spurningum og búa til texta. Nánar er fjallað um gervigreind á Vísindavef Háskóla Íslands.

Hefðbundnir fjölmiðlar

Fjölmiðlar þar sem blaðamenn hafa reynslu og faglega þekkingu á vinnubrögðum í blaðamennsku, starfa samkvæmt siðareglum blaðamanna og lögum um fjölmiðla þar sem meðal annars kemur fram að gæta skuli að hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni.

Óhefðbundnir fjölmiðlar (e. alternative media)

Óhefðbundnir fjölmiðlar líta á sig sem valkost við hefðbundna fjölmiðla (sjá umfjöllun ofar) og miðla oft annars konar upplýsingum en hefðbundnir fjölmiðlar um málefni sem þeir telja mikilvæg. Stærstu óhefðbundnu fjölmiðlarnir í Svíþjóð eru t.d. gjarnir á að fjalla sérstaklega um þjóðerni eða kynþátt sakborninga í umfjöllun um sakamál.

Hóphugsun (e. group think)

Þegar ofuráhersla á samstöðu, samheldni og samræmi hóps í hegðun og skoðunum leiðir til óskynsamlegra ákvarðana. Hópar sem einkennast af hóphugsun eru gjarnan með sterkan leiðtoga sem hefur litla þolinmæði fyrir skoðanamun innan hópsins eða gagnrýni utanaðkomandi aðila. Hóphugsun getur t.d. myndast á vinnustöðum.

Læsi

Sem almennt orð er læsi notað bæði í bókstaflegri merkinu og í yfirfærðri merkingu:

  • Í bókstaflegri merkingu er læsi notað um þá færni að geta lesið ritað mál og skilið það, það er að vera læs eins og almenningur skilur það hugtak. Orðið getur einnig átt við þá færni að geta skrifað texta samkvæmt viðurkenndri stafsetningu, að vera læs og skrifandi.
  • Í yfirfærðri merkingu er læsi notað um þá færni að geta ráðið í, lesið og skilið ýmis konar tákn eða merki í umhverfinu, sem skynjuð verða með augum eða eyrum. Í þessum yfirfærða skilningi er allt umhverfi mannsins fullt af merkingarbærum táknum, umhverfið hefur mál og getur talað til mannsins.

Sjá nánari umfjöllun á Vísindavef Háskóla Íslands.

Meinupplýsingar (e. malinformation)

Þegar réttum upplýsingum er deilt af ásetningi og til þess að valda skaða.

Meme (borið fram mím)

Myndir, hreyfimyndir (GIF) eða myndbönd, stundum með stuttum skilaboðum, sem fara á flug um netheima. Tilgangurinn er að koma á framfæri hughrifum eða tilfinningum, gjarnan tengt einhverju í nútímamenningunni, t.d. þekktum einstaklingum, sjónvarpskarakterum eða teiknimyndafígúrum. Oftast eitthvað fyndið en þó ekki alltaf. Sjá nánari umfjöllun á Vísindavef Háskóla Íslands.

Misupplýsingar

Þegar röngum eða misvísandi upplýsingum er deilt án ásetnings og ekki til að valda skaða (sá sem deilir heldur að upplýsingarnar séu réttar).

Myrki vefurinn

„Dark Web“ má þýða sem „myrka vefinn“ en það er aðeins lítill hluti djúpvefsins (sjá umfjöllun um djúpvefinn ofar). Myrki vefurinn birtist ekki í hefðbundnum leitarvélum og er aðeins aðgengilegur með sérstökum hugbúnaði. Dæmi um slíkan hugbúnað er Tor-netvafrinn (The Onion Router) en hann gerir notendum kleift að flakka nafnlaust á netinu og kemur í veg fyrir að hægt sé að rekja ferðir þeirra þar. Ólögleg starfsemi af ýmsu tagi er á meðal þess sem er að finna á myrka vefnum.

Netveiðar (e. phishing)

Yfirleitt eiga netveiðar sér stað í gegnum tölvupóst sem sendur er á grunlausan aðila þar sem fram kemur að viðtakandinn þurfi að smella á tengil sem fylgir póstinum. Oftar en ekki er um að ræða tengil á síðu sem lítur út eins og heimabanki eða greiðslusíða en er í raun fölsk síða. Tilgangurinn er oftast að blekkja viðkomandi til að setja inn skráningarupplýsingar og lykilorð og hafa þannig af honum fé. Einnig er algengt að fjársvikarar hakki sig inn á Facebook aðganga grunlausra aðila og sendi svo skilaboð á vini þeirra í gegnum Messenger-skilaboðaforritið. Þá er spurt um símanúmer viðkomandi vinar og í kjölfarið beðið um að viðkomandi sendi SMS-kóða vegna „gjafaleiks“. Tilgangurinn getur verið að komast inn í netbanka viðkomandi einstaklings.

Óhefðbundnar staðreyndir (e. alternative facts)

Mótsagnarkennt hugtak, því að staðreynd er staðreynd. Hugtakið „óhefðbundnar staðreyndir“ vísar til þess að sumir fara óhefðbundnar leiðir til að nálgast umræðu um staðreyndir og túlka þær með valkvæðum hætti, allt eftir því hvað hentar pólitískri hugmyndafræði hvers og eins.

Persónuárás (Ad hominem)

Að „fara í manninn“, þ.e. ráðast á, gera lítið úr og hæðast að manneskju í rökræðum í stað þess að gagnrýna rökin sjálf. Persónuárásir eru oft notaðar til að þagga niður í öðrum, hindra og letja aðra til þátttöku í umræðum.

Pótemkín-tjöld

Stundum er talað um Pótemkín-tjöld á netinu og er þá átt við gervistofnanir, gervirannsóknarsetur,  gervihugveitur og annað sambærilegt, sem fjársterkir aðilar setja á fót í þeim tilgangi að láta villandi eða rangar upplýsingar á netinu virðast áreiðanlegar. Hugtakið „Pótemkín-tjöld“ dregur nafn sitt af rússneskum herforingja, Grigory Potemkin, sem var ástmaður Katrínar miklu og kallaður hefur verið leikmyndahönnuður stjórnmálanna. Sagan segir að hann hafi sett upp „leiktjöld“ og sviðsett heilu þorpin á Krímskaganum til að fegra ímynd svæðisins út á við og gefa til kynna að íbúar þess nytu velsældar og velmegunar.

Rangupplýsingar (e. disinformation)

Þegar röngum eða misvísandi upplýsingum er deilt af ásetningu og til þess að valda skaða.

Rökflóð (e. Gish-gallop)

Að drekkja andstæðingnum í yfirþyrmandi magni raka, staðreynda og heimilda, sem margar hverjar eru rangar eða ótengdar viðfangsefninu. 

Rökrán (e. hijacking of arguments)

Að taka yfir umræðu og breyta um stefnu í umræðu. Rökrán er sérstaklega áhrifarík leið þegar breyta á um stefnu eða stýra á umræðu í aðra átt á samfélagsmiðlum.

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar (e. social media) hafa á skömmum tíma orðið mikilvægur þáttur í daglegu lífi margra. Þeir eru margir og mismunandi en þrátt fyrir það er hægt að draga fram nokkra þætti sem þeir eiga sameiginlega:

  1. Samfélagsmiðlar eru gagnvirkir (e. interactive) miðlar þar sem notendur geta verið í samskiptum við aðra notendur með einhverjum hætti.
  2. Samfélagsmiðlar byggja að miklu leyti á efni sem er búið til og deilt af notendum þeirra (e. user-generated content).
  3. Á samfélagsmiðlum búa notendur yfirleitt til einhvers konar síðu (e. profile eða page) um sig.
  4. Flestir samfélagsmiðlar eiga það sameiginlegt að notendur þeirra tengjast öðrum notendum í gegnum þessar síður með einhverjum hætti (til dæmis með því að vera vinir eða að fylgja viðkomandi).

Finna má ítarlega skilgreiningu á samfélagsmiðlum á Vísindavef Háskóla Íslands.

Sannleiksblekking endurtekningarinnar

Því oftar sem staðhæfing er endurtekin þeim mun líklegra er að fólk trúi því að hún sé sönn.

Skautun (e. polarization)

Skautun (pólarísering) á samfélagsmiðlum vísar til þess þegar hópar sem aðhyllast ólíkar, andstæðar skoðanir fjarlægjast sífellt hvorn annan í skoðunum sem aftur eykur á andstöðuna þeirra á milli.

Síubólur (e. filter bubbles)

Hugtakið síubóla vísar til þess þegar algóritmi samfélagsmiðlanna færir notendum þeirra eingöngu efni sem þeim líkar vel og skilaboð sem þeir eru sammála. Notendur sjá því eingöngu efni sem staðfestir heimsmynd þeirra og festir hana í sessi en ekki efni þar sem mótrökum er teflt fram. Síubólur og bergmálshellar (sjá ofar) hafa mikil áhrif á samfélagsumræðu og hvernig almenningur mótar sér skoðun.

Smellubeitur

Fréttir með sláandi og/eða forvitnilegum fyrirsögnum sem vekja áhuga og löngun almennings til að smella á fréttir. Þegar farið er að lesa fréttina kemur í ljós að fyrirsögnin er ekki endilega í fullu samræmi við innihald fréttarinnar og villandi að því leytinu til. Þeir sem eru leiknir í að setja saman smellubeitur eru stundum kallaðir „smelludólgar“. 

Sokkabrúður (e. Sock puppets)

Falskir notendareikningar sem notaðir eru til að kynda undir ófriði og reyna að stýra umræðum á netinu. Stundum eru tveir eða fleiri slíkir notendareikningar notaðir til að stýra umræðunni í andstæðar áttir og skipta fólki í fylkingar.

Spjallmenni (e. chatbot)

Tækni sem er hönnuð til samtals á netinu og tekur þátt í netspjalli með tali eða rituðum texta. Spjallmenni eru oft notuð til að þjónusta viðskiptavini í umræðukerfum á vefsíðum fyrirtækja og spjallforritum samfélagsmiðla.

Staðfestingarhlutdrægni

Þegar við erum sannfærð um eitthvað sem við teljum satt og rétt höfum við tilhneigingu til að afla okkur einungis upplýsinga sem staðfesta þann sannleika.

Staðleysufaraldur (e. infodemic)

Upplýsingaóreiða um COVID-19. Orðið staðleysufaraldur vísar til þess þegar falsfréttir (staðleysur) um kórónuveiruna dreifðust nánast jafnhratt á netinu og heimsfaraldurinn sjálfur, sérstaklega á samfélagsmiðlum.

Strámaður (Grýlurök)

Rökræðubrella sem gengur út á það að snúa út úr rökræðu andstæðingsins og ráðast síðan á þann útúrsnúning í stað þeirra raka sem upphaflega voru sett fram.

Svikahrappar/svikarar

Svikahrappar/svikarar eru óprúttnir einstaklingar sem sigla undir fölsku flaggi, þykjast vera aðrir en þeir eru og þykjast t.d. hafa menntun og sérfræðiþekkingu sem þeir búa ekki yfir í raun. Dæmi eru um að fólk hafi villt á sér heimildir og þóst vera læknar, hjúkrunarfræðingar eða lögmenn án þess að hafa menntun og tilskilin réttindi á því sviði.

Tálfuglar (e. Shill)

Nafnið tálfugl er dregið af gervifuglum úr plasti sem skotveiðimenn nota til að lokka bráðina til sín. Tálfuglar á netinu eru einstaklingar sem virðast sjálfstæðir en starfa í raun fyrir hönd einhvers annars og fá greitt fyrir að hafa áhrif á samfélagsumræðuna með einum eða öðrum hætti, t.d. með því að skrifa jákvæðar umsagnir um vörur í netverslunum eða lofa góða frammistöðu. Einnig eru tálfuglar stundum notaðir til að ljá sjónarmiðum og hugmyndum einstaklinga eða fyrirtækja trúverðugleika. Líkja má tálfuglum við aðkeyptan aðdáendahóp. Tálfuglar geta einnig verið nettröll sem fá greitt fyrir að skrifa athugasemdir í athugasemdakerfum fjölmiðla, á samfélagsmiðlum eða bloggsíðum.

Tilbúningur/uppspuni (e. Fabricated content)

Tilbúningur eða uppspuni er uppspunnið efni sem birt er á þann hátt að viðtakandinn trúi því að upplýsingarnar séu sannar og réttar. Efni af þessu tagi getur t.d. verið í formi tölvupósts frá stjórnmálamanni sem er lekið til fjölmiðla til að grafa undan trúverðugleika hans.

Tröllaverksmiðjur

Hugtakið tröllaverksmiðja vísar til þess þegar að svokölluð nettröll eru ráðin til starfa á launum til að dreifa upplýsingaóreiðu, áróðri og/eða haturstali með skipulögðum hætti, með það að markmiði að hafa áhrif á almenningsálitið. Afurðir tröllaverksmiðja birtast fyrst og fremst í formi stöðufærslna og athugasemda á samfélagsmiðlum en einnig „raunverulegra“ greinaskrifa á ýmsum vettvangi. Þeir sem starfrækja slíkar tröllaverksmiðjur geta verið ríki, fyrirtæki eða stofnanir.

Upplýsingahernaður

Þegar upplýsingaóreiðu er dreift með skipulegum hætti í stríði og aðdraganda stríðsátaka til að stýra umræðu og skapa sundrungu í samfélögum.

Upplýsingalæsi

Upplýsingalæsi (e. information literacy, IL), er hæfni einstaklings til að rata í frumskógi upplýsinga, vita hvaða upplýsingar hann vantar og þekkja leiðir til að finna þær. Upplýsingalæsi er hæfni til að geta borið saman upplýsingar, metið áreiðanleika þeirra á gagnrýninn og greinandi hátt, skilja hvernig þær hafa orðið til, og geta unnið úr þeim þá þekkingu sem hann sækist eftir. Finna má ítarlega skilgreiningu á upplýsingalæsi á Vísindavef Háskóla Íslands.

Upplýsingaóreiða (e. information disorder)

Regnhlífarhugtak sem tekur til þess þegar röngum upplýsingum er deilt á netmiðlum, ýmist vísvitandi eða af misgáningi. Undir hugtakið falla misupplýsingar, rangupplýsingar og meinupplýsingar (sjá skilgreiningu á þeim annars staðar í þessum lista). Ef röngum upplýsingum er deilt vísvitandi er það oftast gert í þeim tilgangi að valda skaða og/eða skapa sundrungu í samfélögum. Upplýsingaóreiða getur náð gríðarlegri útbreiðslu á skömmum tíma þegar dreifing hennar fer fram með fölskum notendareikningum sem stýrt er af sjálfvirkum tölvuforritum (bottum). Algengt er að sjá dæmi um upplýsingaóreiðu þegar hagsmunir eru miklir og mál umdeild, eins og í aðdraganda kosninga, í stríði og í tengslum við alþjóðastjórnmál. Finna má ítarlega skilgreiningu á hugtakinu upplýsingaóreiða á Vísindavef Háskóla Íslands.

Vinsældarlestin (e. Bandwagon effect)

Vinsældarlestin (e. bandwagon effect) vísar til þess að fólk hefur tilhneigingu til að „stökkva á vagninn“ og styðja þau mál sem eru líkleg til sigurs og njóta hylli meirihlutans. Hið gagnstæða er kallað þagnarsvelgur en það vísar til þess að þeir sem telja sig tilheyra minnihlutahópum eru síður líklegir en aðrir til að stíga fram á opinberan vettvang og deila skoðunum sínum með öðrum.

„Whatabout“-ismi (ísl. „hvað með“-ismi)

Rökræðutækni þar sem gagnrýni er vísað á bug eða mótmælt með því að bera fram gagnásökun eða benda á eitthvað annað til samanburðar. Dæmi: Jón kemur of seint í stærðfræðitíma og fær skammir frá kennara. Hann bregst við með því að benda á bekkjarfélaga sinn og segir „en hvað með Gunna? Hann skrópaði í tíma í gær“.

Yrki/botti (e. bot)

Yrki er íslensk þýðing á enska orðinu „bot“, sem aftur er stytting á orðinu „robot“ (vélmenni) en stundum er einfaldlega talað um „botta“ á íslensku. Með því er átt við sjálfvirkt tölvuforrit sem er ætlað að framkvæma einföld og endurtekin verkefni eins og síendurtekna dreifingu efnis. Yrki (botti) hagar sér yfirleitt eins og manneskja á netinu. Til dæmis með þeim hætti að endurtísta færslum á Twitter, skrifa athugasemdir í athugasemdakerfi samfélagsmiðla eða senda og svara skilaboðum í samskiptaforritum. Yrkjar (bottar) eru á bak við marga falska notendareikninga á samfélagsmiðlum, sem eru notaðir til að kynda undir umræðum í athugasemdakerfum.

Þagnarsvelgur/þagnarspírall (e. Spiral of Silence)

Hugtakið þagnarsvelgur vísar til þess að þeir sem telja sig tilheyra minnihlutahópum eru síður líklegir en aðrir til að stíga fram á opinberan vettvang og deila skoðunum sínum með öðrum. Hið gagnstæða er kallað vinsældarlestin (e. bandwagon effect) en þá hefur fólk tilhneigingu til að „stökkva á vagninn“ og styðja þau mál sem eru líklegust til sigurs og njóta hylli meirihlutans.

 

Helstu heimildir:

Staðreyndavaktin Faktajouren: Faktajourens ordlista – Faktajouren (fojo.se)

Handbók fyrir blaða- og fréttamenn: Att möta informationspåverkan. Handbok för journalister

Vísindavefur Háskóla Íslands: https://www.visindavefur.is