Færri börn og ungmenni beðin um að senda af sér nektarmyndir

Hlutfall barna og ungmanna sem segist hafa fengið senda nektarmynd/ir eða hafa verið beðin um að senda af sér nektarmynd/ir lækkar frá árinu 2021. Þá eru einnig færri sem hafa upplifað hótanir, einelti, útilokanir frá hópum og ljót komment í tölvuleikjum eða á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram þegar að niðurstöður úr nýrri skýrslu um kynferðisleg komment og nektarmyndir meðal meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára eru bornar saman við sambærilega rannsókn frá árinu 2021.

Skýrslan er annar hluti af sex og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum. Er þetta í annað sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Tilfellum þar sem strákar fá hótanir eða ljót komment á netinu fjölgar með aldri

Meirihluti barna og unglinga hefur ekki orðið fyrir þeim hótunum, áreiti eða áreitni á netinu sem spurt er um í könnuninni. Í yngsta aldurshópnum, 4.-7. bekk, er algengasta áreitið oft eða stundum (15%) þegar spurt var hvort einhver hafi verið vondur við þau eða lagt í einelti á netinu, símanum eða tölvuleikjum. Aðeins lægra hlutfall þátttakenda (14%) upplifir að hafa verið útilokuð frá hópum á netinu. Á unglingastigi er algengasta áreitið að hafa fengið ljót komment á netinu og í tölvuleikjum oft eða stundum (15%). Litlu færri (14%) hafa upplifað að einhver hafi verið vondur við þau og lagt í einelti. Meðal framhaldsskólanema er einnig algengast að hafa fengið ljót komment á netinu, í tölvuleik eða á samfélagsmiðlum (15%). Næst algengast (14%) er að þeir hafi upplifað að birtar hafi verið af þeim myndir sem þeim leiddist eða reitti þá til reiði. Í öllum aldurshópum eru fleiri strákar en stelpur sem hafa upplifað oft eða stundum að vera áreittir á netinu, í símanum eða í tölvuleikjum. Tæplega þrír af hverjum tíu strákum í framhaldsskóla hafa fengið ljót komment á netinu, í tölvuleik eða á samfélagsmiðlum. Tveir af hverjum tíu strákum hafa fengið hótanir á netinu, í tölvuleikjum eða á samfélagsmiðlum. Tilfellum þar sem strákar fá hótanir eða ljót komment á netinu fjölgar með aldri. Á unglinga- og framhaldsskólastigi eru aðeins fleiri stelpur en strákar sem hafa upplifað myndbirtingu af sér á netinu sem þeim leiddist eða reitti þær til reiði.

Þegar að niðurstöðurnar eru bornar saman við rannsóknina sem gerð var 2021 sést að hlutfallið hefur lækkað í öllum fimm þáttum sem spurt var um bæði hjá strákum og stelpum árið 2023:

Flestir gera ekkert til að bregðast við neikvæðu áreiti sem þeir verða fyrir á netinu

Nær helmingur þátttakenda sem hafa upplifað neikvæða myndbirtingu segjast hafa beðið þann sem setti inn myndina að eyða henni, en 26-30% þolenda segjast ekki hafa gert neitt. Í yngsta hópnum eru 16% sem segjast hafa sagt einhverjum fullorðnum frá myndbirtingunni en þeim fækkar með hækkandi aldri. Flestir þátttakendur í öllum aldurshópum segjast ekki hafa gert neitt þegar einhver setti inn leiðinlegt komment um þá í tölvuleik eða á netinu. Með hækkandi aldri fjölgar þeim sem ekkert gerðu. Næst algengast er að segjast hafa gert eitthvað annað, sem fylgt var eftir með opnum reit og beðið um skýringu. Samantekið er algengast að viðkomandi segist hafa hlegið, verið sama, skrifað eitthvað ljótt til baka, rifist við eða lamið þann sem setti inn kommentið. Þriðji algengasti valmöguleikinn hjá svarendum er að segjast hafa eytt kommentinu.

Fjórar af hverjum tíu stelpum í framhaldsskóla fengið kynferðisleg komment á netinu

Þátttakendur í 7.-10. bekk og í framhaldsskóla fengu spurningar um kynferðisleg komment á netinu. Samantekið fjölgar þeim sem hafa fengið kynferðisleg komment með hækkandi aldri. Tilfellum fjölgar mikið hjá stelpum frá unglingadeild til framhaldsskóla. Í framhaldsskóla hafa næstum fjórar af hverjum tíu stelpum (36%) fengið kynferðisleg komment á netinu. Flestir þátttakendur sem hafa fengið sent kynferðisleg komment segjast hafa fengið þau frá ókunnugum einstaklingi. Tæplega 60% stelpnanna sem hafa fengið kynferðisleg komment í 8.-10. bekk fengu þau frá ókunnugum. Í framhaldsskóla eru um 75% sem fengu kommentin frá ókunnugum. Þriðjungur stráka í 8.-10. bekk sem fengið hafa kynferðislegt komment segjast hafa fengið þau frá öðrum strákum (29%). En meðal stráka í framhaldsskóla komu flest kommentin frá vinum sem voru stelpur (51%).

Strákar líklegri en stelpur til að líka það að fá kynferðisleg komment á netinu

Um helmingur þátttakenda sem höfðu fengið kynferðisleg komment var alveg sama um kommentið (47-53%). Hins vegar voru fjórar af hverjum tíu stelpum í framhaldsskóla sem höfðu fengið slík komment sem fannst þau viðbjóðsleg. Strákar eru líklegri en stelpur til að líka kommentin og finnast þau spennandi. Þegar þátttakendur sem fengið höfðu kynferðisleg komment eru spurðir hvernig þeir hefðu brugðist við kommentunum er algengast að þeir hafi ekki gert neitt sérstakt. Í 8.-10. bekk er hlutfall stelpna örlítið hærra en stráka sem gerðu ekkert sérstakt en í framhaldsskóla eru strákar aðeins fleiri. Stelpur eru tvöfalt líklegri en strákar á báðum skólastigum til að hafa blokkerað þann sem sendi kommentin. Einnig voru stelpur líklegri en strákar til að segja systkinum eða vinum frá kommentunum.

Tveir af hverjum tíu nemendum í 8.-10. bekk hafa fengið sendar nektarmyndir

 Þátttakendur í 8.-10. bekk grunnskóla og 18 ára og yngri nemendur í framhaldsskóla voru spurðir nokkurra spurninga um deilingu nektarmynda. Tveir af hverjum tíu þátttakendum í 8.-10. bekk og um helmingur á framhaldsskólastigi segjast hafa fengið sendar nektarmyndir. Á framhaldsskólastigi eru stelpur helmingi líklegri til að hafa fengið senda nektarmynd en strákar. Á unglingastigi eru stelpur einnig líklegri til að hafa fengið slíkar myndsendingar (24%), en hlutfall stráka er nokkuð lægra (16%). Rúmlega 70% þeirra stelpna sem höfðu fengið nektarmyndir sendar segjast hafa móttekið þær frá ókunnugri manneskju á netinu. Hlutfall stráka sem höfðu fengið myndirnar frá ókunnugum var mun lægra eða 34% á unglingastigi og 24% á framhaldsskólastigi. Um 40% stráka í framhaldsskóla sem móttekið höfðu nektarmyndir segjast hafa fengið myndirnar frá kærustu/kærasta eða frá vini sem er stelpa (51%).

Stelpur í framhaldsskóla þrefalt líklegri en strákar til að vera beðnar um nektarmyndir

Allir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi voru spurðir hvort þeir hafi einhvern tímann verið beðnir um nektarmynd. Stelpur (68%) í framhaldsskóla eru u.þ.b. þrefalt líklegri en strákar (22%) til að fá slíka beiðni. Um 70% stelpna á báðum skólastigum sem höfðu fengið beiðni um nektarmynd segjast hafa fengið beiðnina frá ókunnugum aðila á netinu. Hjá strákum er hlutfallið um 30%. Á báðum skólastigum eru hlutfallslega fleiri strákar en stelpur sem höfðu fengið beiðni um nektarmynd sem fengu hana frá kærustu/kærasta sínum. Allir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi voru spurðir hvort þeir hefðu sent eða deilt nektarmynd af sér undanfarið ár. Hlutfallið er nokkru hærra sem hafði deilt slíkum myndum á framhaldsskólastigi, sérstaklega meðal stelpna. Hlutfall af þátttakendum sem hafa þegið greiðslur eða gjöf fyrir að senda af sér nektarmynd er lágt. Í 8.-10. bekk segist innan við 1% hafa þegið endurgjald fyrir myndsendinguna. Í framhaldsskóla er hlutfallið meðal stráka 1,1% og stelpna 1,4%. Allir þátttakendur á unglinga- og framhaldsskólastigi voru spurðir hvort þeir hefðu sent eða deilt nektarmynd af öðrum en sér undanfarið ár. Um 2% þátttakenda á unglingastigi segjast hafa sent þannig mynd og 1% framhaldsskólanema.

Ánægjulegt er að sjá að hlutfall stráka og stelpna sem hafa fengið sendar nektarmyndir, verið beðin um að senda nektarmyndir og hafa sent nektarmyndir er lægra nú en árið 2021.

Deila: