SAFT til Fjölmiðlanefndar

Þann 1. janúar 2024 færðist umsjón með framkvæmd SAFT-verkefnisins frá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra til Fjölmiðlanefndar. SAFT er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og ungmenna á Íslandi. Verkefnið hefur verið styrkt og unnið í samstarfi við styrkjaáætlanir Evrópusambandsins tengdum netöryggi og vernd barna á neti. Í dag gegnir SAFT hlutverki Netöryggismiðstöðvar eða Safer Internet Center á Íslandi eins og víða eru starfræktar innan Evrópu.

Fram að áramótum hefur Heimili og skóli verið aðalábyrgðaraðili gagnvart ESB og annast framkvæmd og umsýslu verkefnisins í formlegu samstarfi við Rauða krossinn, ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children á Íslandi. Héðan í frá mun Fjölmiðlanefnd taka yfir verkefnið undir nýjum formerkjum sem verða kynnt síðar. Fyrirkomulagið samræmist þeim áherslum sem mótaðar hafa verið á hinum Norðurlöndunum, þ.e. að opinberar stofnanir sem hafa það lögbundna hlutverk að sinna miðla- og upplýsingalæsi séu samningsaðilar ríkja gagnvart Evrópusambandinu vegna Netöryggismiðstöðva, Safer Internet Centers, undir áætluninni Digital Europe.  Fjölmiðlanefnd hefur samkvæmt 10 gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 skyldu til að efla upplýsinga- og miðlalæsi allra landsmanna og auka skilning á hlutverki og notkun ólíkra miðla meðal almennings.

Heimili og skóli hefur á undanförnum mánuðum, samfara SAFT verkefninu, verið að vinna að endurreisn foreldrasamstarfs eftir heimsfaraldur, í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið og fjölda annarra hagaðila. Farsældarsáttmálinn, sem er afurð þeirrar samvinnu, er frábært tæki fyrir foreldra til að koma saman og setja sameiginlegan ramma og viðmið fyrir börnin og þá ekki síst viðmið er varða netöryggi barna.

Örugg netnotkun barna og ungmenna er mikilvægur þáttur í lýðheilsu barna og mun Heimili og skóli í samvinnu við Fjölmiðlanefnd sinna þessu mikilvæga verkefni áfram í samtali við foreldra og skólasamfélagið.

Nauðsynlegt er að marka öfluga miðlalæsisstefnu til framtíðar. Þá þarf að gæta að því að þekking, reynsla og það fræðsluefni sem hefur orðið til í tengslum við SAFT verkefnið síðastliðin ár glatist ekki. Mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis hefur aldrei verið meira en nú og því framundan krefjandi verkefni í örum og síbreytilegum stafrænum heimi. Miklu máli skiptir að byggja ofan á það góða starf sem unnið hefur verið undir merkjum SAFT hjá Heimili og skóla.

Nú er hafin vinna við stefnumótun verkefnisins, endurmörkun á vörumerki þess, uppfærslu og breytingar á vef SAFT – Netöryggismiðstöðar Íslands (Icelandic Safer Internet Center). Síðar á þessu ári verður verkefnið og endurskoðuð hugmyndafræði kynnt undir nýjum formerkjum, eins og áður sagði. Nýr sviðsstjóri SAFT – Netöryggismiðstöðvar Íslands er Skúli Bragi Geirdal, sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd.

„Öryggi barna og ungmenna í hinum stafræna heimi er eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir sem foreldrar. Samstaða foreldra í þessum málum er árangursríkasta leiðin til að við getum búið til góðan ramma fyrir börnin okkar hvort sem er út á leikvelli eða á netinu,“ segir Þorvar Hafsteinsson, formaður Heimilis og skóla – Landssamtaka foreldra.

„Afar mikilvægt er að fylgja SAFT verkefninu vel eftir í góðu samstarfi við Heimili og skóla og þá aðila sem vinna að miðla- og upplýsingalæsi hér á landi. Við vonumst til þess að sérþekking og reglubundnar rannsóknir Fjölmiðlanefndar á netnotkun barna og ungmenna muni skila sér í öflugu fræðslustarfi á næstu árum,“  segir Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.

Deila: