Alþjóðlegi netöryggisdagurinn – 6. febrúar 2024

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er í dag, 6. febrúar 2024. Haldið er upp á þennan dag víða um heiminn ár hvert með það að markmiði að vekja athygli á netöryggi og hvetja fólk, ekki síst börn og ungmenni, til að huga að góðum samskiptum á netinu. Á Íslandi hefur alþjóðlegi netöryggisdagurinn verið skipulagður af SAFT. SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni er vitundarvakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og ungmenna á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun. Ábendingalína Barnaheilla og Hjálparsími Rauða krossins, 1717, eru einnig hluti af verkefninu.

Mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis hefur aldrei verið meira 

Upplýsinga- og miðlalæsi er hornsteinn öruggrar netnotkunar enda eflir það gagnrýna hugsun þannig að almenningur geti dregið skynsamar ályktanir af þeim upplýsingum sem verða á vegi hans. Aðgangur að traustum upplýsingum er forsenda upplýstrar umræðu. Á síðustu árum hefur dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu færst mjög í aukana á stafrænum miðlum á sama tíma og netið er að verða stærri og mikilvægari samskiptavettvangur í lýðræðislegri umræðu. Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að auðveldara er að dreifa upplýsingum og að sama skapi erfiðara að greina uppruna og sannleiksgildi hinna ýmsu upplýsinga. Mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis hefur því aldrei verið meira en nú.

Sérstök fræðsluvika tileinkuð upplýsinga- og miðlalæsi verður haldin í annað sinn á Íslandi vikuna 12.-16. febrúar. Fordæmi eru fyrir slíkum vikum í öðrum löndum og var vinnuhópurinn sem stendur að verkefninu t.a.m. í góðu samstarfi við KAVI í Finnlandi og Medietilsynet í Noregi við undirbúning fræðsluvikunnar í fyrra en þá fengu allir skólar sendan fræðslupakka með sex fræðslumyndböndum ásamt kennslustuðningi. Fræðsluefnið er ætlað fyrir börn á miðstigi um samskipti og líðan á netinu, áhorf á klám, fréttir og falsfréttir og ábyrga notkun samfélagsmiðla. Í ár verður opnuð ný heimasíða Netumferðarskólans, samstarfsverkefni Fjölmiðlanefndar og Persónuverndar sem miðar að því að efla fræðslu um persónuvernd, miðlalæsi og netöryggi barna í stafrænni tilveru. Á heimasíðunni verður að finna fjölbreytta fræðslu í formi myndbanda og texta ásamt verkefnum og stuðningsefni fyrir kennara. Þar að auki hefur Fjölmiðlanefnd verið í samstarfi við Geðheilsumiðstöð barna við gerð nýrra skjátímaviðmiða fyrir börn og ungmenni en viðmiðin hafa nú þegar þegar verið birt á vef Heilsuveru. Hápunktur fræðsluvikunnar verður svo málþing um velferð barna í stafrænum heimi sem haldið verður í Grósku fimmtudaginn 15. febrúar nk. Skráning á málþingið fer fram hér.

 

Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) stendur að vikunni með styrk frá Fjölmiðlanefnd.

 

Eftirfarandi stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki og samtök eiga fulltrúa í tengslanetinu:

Fjölmiðlanefnd, SAFT & Heimili og skóli, Menntasvið Kópavogsbæjar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Mixtúra, Kvikmyndamiðstöð, Landsbókasafn Íslands, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, RÚV – Ríkisútvarpið, Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið, Listaháskóli Íslands, Háskóli þriðja æviskeiðsins, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Endurmenntun HÍ, Símenntun HA, RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun, Barnaheill, Landsnefnd UNESCO, Persónuvernd, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Samstarfshópur um stafræna borgaravitund, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða, Félag framhaldsskólabókasafna, Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, AwareGO, Embætti Landlæknis og RIFF- Reykjavík International Film Festival.

Deila: