Ný skýrsla: Traust í íslensku samfélagi

Þrír af hverjum tíu (29,6%) sögðust bera annað hvort fremur eða mjög mikið traust til fjölmiðla á Íslandi í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar sem nefnist „Traust í íslensku samfélagi“. Hlutfall þeirra sem hafa séð falsfréttir, fengið þær sendar eða rekist á þær með öðrum hætti á netinu síðastliðna 12 mánuði lækkar á milli ára en á móti þykir fleirum flókið að fylgjast með fréttum nú en áður. Þá voru þátttakendur beðnir að rifja upp síðasta skipti sem þeir rákust á frétt á netinu og drógu þá ályktun að hún væri röng eða að um falsfrétt væri að ræða og hvernig þeir brugðust við. Tvöfalt fleiri sögðust ekki hafa gert neitt árið 2022 (43,2%) samanborið við árið 2021 (23,8%). Það veldur áhyggjum að svo hátt hlutfall fólks í samfélaginu eigi í erfiðleikum með að fylgjast með fréttum en ekki síður hvað aðgerðarleysi gagnvart dreifingu falsfrétta er mikið.

 

Traust mælist almennt mjög hátt á Norðurlöndunum í alþjóðlegum samanburði. Raunar er traust manna á meðal og til ýmissa stofnana samfélagsins talið vera svo mikið á Norðurlöndunum að talað hefur verið um „hið norræna gull“ sem hægt er að meta til fjár, þar sem það er sú auðlind sem skapað hefur mest verðmæti í samfélögum Norðurlandanna. Rannsóknir hafa sýnt að traust hefur áhrif á þjóðarhag, glæpatíðni, og hamingju fólks. Þá bætir það samkeppnisstöðu Norðurlanda á stafrænni öld. Eftir efnahagshrunið 2008 minnkaði þó traustið á Íslandi. En eftir sem áður er traust almennt mikið á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.

Samfélagsmiðlar mikið notaðir þrátt fyrir lítið mikilvægi

Það vakti athygli í rannsókn Fjölmiðalnefndar árið 2022 hve mikið misræmi var á milli þess hve lítt mikilvægir samfélagsmiðlar voru sem fréttamiðlar að mati þátttakenda og hversu oft þeir notuðu þá til að nálgast fréttir. Þegar spurt var hvaða fjölmiðill væri mikilvægastur að mati þátttakenda voru einungis 5,6% sem sögðu samfélagsmiðlar. Þegar fjölmiðlar eru hins vegar skoðaðir með tilliti til þess hvenær þátttakendur notuðu þá síðast til þess að nálgast fréttir, að deginum sem könnunin fór fram undanskildum, kemur í ljós að næstflestir (74,9%) höfðu notað samfélagsmiðil.

Mest traust í garð sóttvarnayfirvalda en minnst til samfélagsmiðla

Meirihluti aðspurðra, eða 74,5%, sögðust bera annað hvort fremur eða mjög mikið traust til sóttvarnayfirvalda á Íslandi. Til samanburðar voru einungis 23,8% sem tóku sömu afstöðu til fólks sem það þekkir ekki, 27,8% til stjórnvalda, 29,6% til fjölmiðla og 32,2% til dómstóla. Minnstra traustið báru þátttakendur til samfélagsmiðla en einungis 6,0% sögðust bera annað hvort fremur mikið eða mjög mikið traust til þeirra. Það er áhyggjuefni hve lítið traust á Íslandi er almennt, sér í lagi að traust til fjölmiðla sé jafn lítið og til ókunnugs fólks.

Konur finna síður til öryggis á almannafæri en karlar

Þrátt fyrir að traust mælist almennt lítið er ánægjulegt að sjá hve hlutfall þeirra sem finna til mikils öryggis á almannafæri hér á landi mælist hátt en meirihluti aðspurðrar, eða 75,1%, kvaðst finna til annað hvort fremur mikils eða mjög mikils öryggis. Þá voru 21,6% sem sögðust finna til í meðallagi mikils öryggis og einungis 3,4% til fremur lítils eða mjög lítils öryggis. Karlar voru líklegri til að finna til öryggis á almannafæri heldur en konur.

Meirihluti sammála því að Ríkisútvarpið sé óháð í fréttaumfjöllun

Um helmingur þátttakenda var annað hvort nokkuð eða mjög sammála því að Rúv/Rás1/Rás2/Ruv.is (66,4%), Kjarninn.is (55,3%), Vísir.is (53,2%), Stöð2/Bylgjan (50,4), Stundin.is (50%) og Fréttablaðið/Frettabladid.is (49,4%) væru óháðir pólitískum, efnahagslegum eða öðrum sérhagsmunum þegar þeir fjalla um samfélagið og umheiminn. Þá var tæpur fjórðungur sammála því að Hringbraut (38,1%), Viðskiptablaðið/vb.is (37,6%), Dv.is (30,9%), og Morgunblaðið/Mbl.is/K100 (30,6%) væru óháðir í umfjöllun sinni. Fæstir voru sammála því að samfélagsmiðlar (27,5%), Mannlif.is (26,3%), Samstodin.is (23,3%), Frettin.is (21,7%) og Útvarp Saga (16,1%) væru óháðir í umfjöllun sinni.

Fleirum þykir flókið að fylgjast með því sem er í fréttum

Alls voru 18,7% þátttakenda annað hvort fremur eða mjög sammála fullyrðingunni „mér finnst erfitt að fylgjast með því sem er í fréttum“, sem er fjölgun frá árinu 2021 þegar hlutfallið mældist 12,7%. Tæplega þriðjungur, eða 26,6% var í meðallagi sammála miðað við 19,7% árið á undan. Hlutfall þeirra sem voru annað hvort fremur eða mjög ósammála lækkaði úr 67,7% niður í 54,7% á milli ára.

Fleiri halda sér upplýstum án þess að fylgjast með fréttum

Rúmlega helmingur aðspurðra, eða 51,2%, voru annað hvort fremur eða mjög ósammála fullyrðingunni „ég held mér vel upplýstri/upplýstu(m) þótt ég fylgist ekki með fréttum“. Er það hækkun frá árinu 2021 þegar hlutfallið var 43,7%. Yngri aldurshópar voru líklegri til að taka þá afstöðu heldur en þeir eldri.

Færri velja að tjá sig á opinberum vettvangi

Spurt var út í það hvernig þátttakendur tjá sig á samfélagsmiðlum. Flestir sögðust tjá sig í einkaskilaboðum til vina og fjölskyldu (63,4%) og/eða í spjallhópum (45,7%). Tæplega þriðjungur sagðist tjá sig með athugasemdum við færslur vina (29,4%) og/eða með athugasemdum í lokuðum hópum (24,0%). Heldur færri sögðust tjá sig á opinberari vettvangi eins og með stöðuuppfærslum sem allir geta séð (14,9%), með stöðuuppfærslum í lokuðum hópum (18,7%) og/eða með athugasemdum undir einstökum fréttum (7,0%). Þá voru 25,6% þátttakenda sem sögðust ekki tjá sig á samfélagsmiðlum.

Deila: