Samningur við Fjölmiðlanefnd um þjálfun í miðlalæsi og viðbrögðum við upplýsingaóreiðu á netinu

Samningur við Fjölmiðlanefnd um þjálfun í miðlalæsi og viðbrögðum við upplýsingaóreiðu á netinu

Tveir samningar sem snúa að auknu netöryggi og fræðslu voru undirritaðir af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar, 8. febrúar síðastliðinn.

Samningarnir tveir eru liðir í aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi 2022-2027 og snúa að styrkjum til skipulagningar miðlalæsisviku annars vegar og fræðslu um hvernig takast skal á við ótilhlýðileg áhrif utanaðkomandi falsfrétta og upplýsingaóreiðu á netinu hins vegar.

Fjölmiðlanefnd hefur samkvæmt 10 gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 skyldu til að efla miðla- og upplýsingalæsi allra landsmanna og auka skilning á hlutverki og notkun ólíkra miðla meðal almennings. Til þess að kortleggja stöðu miðlalæsis á Íslandi hefur nefndin látið gera rannsóknir á m.a. fjölmiðla- og samfélagsmiðlanotkun, haturstjáningu á netinu, upplýsingaóreiðu í aðdraganda kosninga og trausti og skautun í samfélaginu. Niðurstöðurnar gefa til kynna að mikilvægt sé að efla vitund og þekkingu almennings á upplýsingaóreiðu og áhrifum hennar.

Miðlalæsi í brennidepli

Upplýsinga- og miðlalæsisvikan verður haldin nú í febrúar að erlendri fyrirmynd og fer málþing um miðlalæsi fram fimmtudaginn 16. febrúar. Hægt er að skrá sig á málþingið hér. Markmið aðgerðarinnar er að vekja athygli á mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis á öllum skólastigum.

Áætlað er að Miðlalæsisvikan verði árlegur viðburður hér á landi og fer Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) með skipulagningu Miðlalæsisvikunnar. Hlutverk TUMI er að auðvelda upplýsingaskipti milli aðila sem vinna að miðlalæsi á Íslandi og sér Fjölmiðlanefnd um utanumhald þess. Gert er ráð fyrir því að miðla- og upplýsingalæsi verði í brennidepli á öllum skólastigum í samstarfi við bókasöfn landsins. SAFT og Heimili og skóli munu svo standa fyrir viðburðum í samstarfið við ólíka aðila.

Verkfæri til að bregðast við upplýsingaóreiðu

Aðgerð sem felst í að þýða og staðfæra námskeið til að efla vitund um skaðsemi upplýsingaóreiðu og falsfrétta hefur það að markmiði að auka færni og þekkingu á því sviði samhliða aukningu netöryggis.

Námskeiðið byggir á nýju námskeiði sem útbúið hefur verið af Myndigheten för psykolokiskt försvar í Svíþjóð og býður upp á verkfærakistu sem nýst hefur vel meðal nágrannaríkja Íslands. Aðferðafræði og fræðsluefni var útbúið með það að markmiði að fræða valda hópa um skaðsemi upplýsingaóreiðu. Þetta á ekki síst við um starfsfólk hins opinbera en einnig aðra hópa, m.a. blaða- og fréttamenn. Mikilvægt er að þessir hópar fái verkfæri til að bregðast við upplýsingaóreiðu til að byggja upp varnir gegn þeirri ógn sem slík óreiða felur í sér fyrir lýðræðissamfélag, enda þekkt að hún geti grafið undan trausti á stöfnunum samfélagsins.

Fjölmiðlanefnd er framkvæmdaaðili verkefnisins sem verður þýtt og staðfært á íslensku en verðu einnig í boði á ensku. Þá verður námskeiðið aðgengilegt fyrir notendur um land allt sem vilja tileinka sér efnið á þeim tíma sem hentar hverju sinn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar við undirritun samningsins.

Deila: