Opið málþing um upplýsinga- og miðlalæsi 16. febrúar

Sérstök fræðsluvika tileinkuð upplýsinga- og miðlalæsi verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi í næstu viku! Allir skólar á landinu munu í dag, á alþjóðlega netöryggisdeginum, fá sendan fræðslupakka með sex fræðslumyndböndum ásamt kennslustuðningi. Fræðsluefnið er ætlað fyrir börn á miðstigi um samskipti og líðan á netinu, áhorf á klám, fréttir og falsfréttir og ábyrga notkun samfélagsmiðla. Þá er nú opið fyrir skráningar á málþing um upplýsinga- og miðlalæsi í fyrirlestrarsal Grósku í Vatnsmýri 16. febrúar kl. 9:00-12:00.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun opna málþingið með ávarpi áður en aðalfyrirlesari dagsins Stephanie Comey tekur til máls. Stephanie er sérfræðingur á sviði miðlalæsis og aðstoðarforstjóri írsku fjölmiðlastofnunarinnar (BAI) en það er áhugavert að líta sérstaklega til þeirra þar sem fyrirtæki á borð við Meta og Google eru með höfuðstöðvar sínar í Evrópu á Írlandi og falla því undir eftirlit þar.

Á málþinginu munu síðan ýmsir sérfræðingar á sviði upplýsinga-, mynd- og miðlalæsis stíga á svið og miðla þekkingu sinni ásamt því að kynna niðurstöður úr nýlegum rannsóknum og spennandi verkefni sem framundan eru. Þá mun málþinginu ljúka með pallborðsumræðum þar sem miðlalæsi verður rætt útfrá ýmsum hliðum.

Fundarstjóri er dr. María Rún Bjarnadóttir, varaformaður Fjölmiðlanefndar.

Dagskrá málþingsins má finna hér fyrir neðan:

Þar sem takmarkað sætaframboð er í boði í salnum er mikilvægt að skrá sig tímanlega. En það má gera með því að smella á hnappinn hér að neðan:

Fyrir þá sem komast ekki verður málþingið í boði í streymi. Hægt er að velja þann valmöguleika í skráningarforminu.

Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi

Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) stendur að vikunni með styrk frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og Sóley, styrktarsjóði á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki og samtök eiga fulltrúa í tengslanetinu:

Fjölmiðlanefnd, SAFT & Heimili og skóli, Menntasvið Kópavogsbæjar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Mixtúra, Kvikmyndamiðstöð, Landsbókasafn Íslands, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, RÚV – Ríkisútvarpið, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið, Listaháskóli Íslands, Háskóli þriðja æviskeiðsins, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Endurmenntun HÍ, Símenntun HA, RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun, Barnaheill, Landsnefnd UNESCO, Persónuvernd, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Samstarfshópur um stafræna borgaravitund, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða, Félag framhaldsskólabókasafna, Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, AwareGO og RIFF- Reykjavík International Film Festival.

Deila: